2011 var 11. heitasta árið

Ekki er hægt að segja að hitabylgjur hafi plagað Íslendinga …
Ekki er hægt að segja að hitabylgjur hafi plagað Íslendinga á síðasta ári en almennt var hitinn þó um eða yfir meðallag. Árni Sæberg

Ekki var eins heitt í veðri á síðasta ári og verið hefur nánast allan síðasta áratug. Samkvæmt útreikningum bandarísku sjávarútvegs- og veðurfræðistofnunarinnar var meðalhitinn í heiminum í fyrra 14,4°C og var árið 2011 það ellefta heitasta frá því slíkar mælingar hófust árið 1880.

Hitinn í fyrra var þó 0,5°C hærri en að meðaltali á 20. öld og raunar var heitara í fyrra en öll ár síðustu aldar nema árið 1998. 

Ein ástæða þess að árið 2011 var mildara en árin á undan var sú að veðurfyrirbærið  La Niña hafði þau áhrif að Kyrrahaf var ekki eins heitt og áður. La Niña er hafstraumur sem gætir í Kyrrahafi á nokkurra ára fresti og leiðir venjulega til þess að hitinn í andrúmsloftinu minnkar.

Hitamet voru sett á Spáni og í Noregi á síðasta ári. Hitinn í Bandaríkjunum var rétt yfir meðallagi en í 17 bandarískum borgum, þar á meðal Houston, Miami og Austin, voru sett hitamet.

Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, birti svipaðar niðurstöður í dag. Stofnunin segir, að aldrei áður hafi verið jafn mörg „öfgaveður" í Bandaríkjunum og á síðasta ári, eða 14 talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert