Niðurstaða nýrrar rannsóknar, sem byggist á öðrum rannsóknum gerðum á 60 ára tímabili, er að G-bletturinn svonefndi, kynörvandi taugaendablettur í kynfærum kvenna, sé ekki til.
Vísindamenn hafa gert spurningakannanir, notað sónartækni og tekið vefjasýni í leit sinni að G-blettinum. Nú hafa ísraelskir og bandarískir vísindamenn farið yfir 96 rannsóknir, sem gerðar hafa verið á þessu fyrirbæri, og komist að afgerandi niðurstöðu.
„Það er enginn vafi á því, að torfundið líkamlegt fyrirbæri, sem nefnt er G-blettur, er ekki til,“ segir Amichai Kilchevsky, þvagfærasérfræðingur hjá Yale-New Haven-sjúkrahúsinu í Connecticut. Hann er aðalhöfundur greinar, sem birtist nýlega í tímaritinu Journal of Sexual Medicine og fjallað er um á vefnum Huffington Post.
Kilchevsky segir að þessi niðurstaða sé ekki „1000% afgerandi“ og segir því ekki útilokað að aðrir vísindamenn uppgötvi eitthvað sem honum og samstarfsmönnum hans yfirsást. En til þess þurfi nýja tækni, sem ekki hafi verið fundin upp enn.
G-bletturinn er nefndur eftir þýska vísindamanninum Ernst Gräfenberg, sem taldi sig á sjötta áratug síðustu aldar hafa fundið þetta kynörvandi svæði. Hann sagði það vera um 1-2 sentimetrar að stærð. Í grein Kilchevskys kemur fram, að slíku svæði hefði raunar verið lýst í indverskum ritum frá 11. öld.