Sólin að lifna við

„Sólin er að lifna við. Hún hefur verið róleg núna síðustu þrjú, fjögur árin,“ segir Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ, spurður út í sólblossa sem varð á sólinni, bæði á sunnudag og svo aðfaranótt mánudags. Þeim fylgdi kórónuskvetta sem stefnir til jarðarinnar.

Erlendir fjölmiðlar segja að sólgosið, sem varð aðfaranótt mánudags, sé það öflugasta sem hafi orðið frá árinu 2005. Gunnlaugur kveðst ekki vera viss um það. Það virðist þó nokkuð öflugt og þá segir Gunnlaugur að blossanum geti fylgt mikið sjónarspil norðurljósa.

„Ég hugsa að það verði frekar líflegt næstu dagana og um helgina. Það er dálítil virkni á yfirborði sólarinnar,“ segir Gunnlaugur. Menn geti búast við norðurljósasýningu í kvöld og í nótt, og jafnvel næstu daga.

Á næstu tveimur til þremur árum megi menn búast við stærri gosum. „Sólin er öll að taka við sér. Hún gengur í gegnum 11 ára lotu eiginlega í þessari virkni og hún er að ná sér upp úr lágmarki núna, sem er búið að standa reyndar óvenju lengi,“ segir Gunnlaugur og bætir við að næturhimininn verði ábyggilega nokkuð líflegur næstu árin.

Gunnlaugur tekur fram að það sé mjög erfitt að spá um þetta því óljóst er hvað drífur þetta áfram. Hann segir að sólin sendi öðru hverju frá sér gusur af ögnum út í geim og hluti þeirra lendi á jörðinni.

Segulsvið jarðar ver jarðarbúa

„Sem betur fer er jörðin með segulsvið sem ver okkur niðri á yfirborðinu fyrir þessum sólvindi, eða hrinum, sem koma. En segulsviðið bregst við álaginu frá þessum gusum með því að aflagast og breytast. Og það er það sem við sjáum á línuritunum í [Segulmælingastöðinni í] Leirvogi. Það er í raun truflunin sem þessi hrina veldur á segulsviði jarðarinnar,“ segir Gunnlaugur.

Aðspurður segir hann að sú ókyrrð sem hafi mælst á sunnudag teljist vera minniháttar. „Þær eru margar miklu stærri en þetta. Þetta er nú tiltölulega vægt gos. En það er meira á leiðinni sem væntanlega kemur í kvöld,“ segir Gunnlaugur og bendir á að þessu fylgi norðurljósasýning. Gosið sem varð aðfaranótt mánudags virðist vera kröftugt.

„Ef segulsviðið á línuritunum hjá okkur í Leirvogi er óreglulegt, þá er líklegra en ekki að það séu kröftug norðurljós. Það er samhengi þar á milli,“ segir hann.

Geta slegið út gervihnetti og orkuver

Ef gosin eru öflug þá geta þau haft áhrif á gervihnetti og fjarskiptatungl. „Slegið þau út ef menn eru ekki viðbúnir. Þeir sem reka svoleiðis tungl eru mjög meðvitaðir um þetta og fylgjast með þessu. Tunglin eru þannig útbúin að þau geta snúið eiginlega bakinu upp í gusuna og varið sig. Menn slökkva þá á hluta af tækjunum um borð ef þau eru sérstaklega viðkvæm. Svoleiðis að menn fylgjast með þessu, því það er dýrt að tapa tungli.“

Í mjög kröftugum gosum geti áhrifin náð beinlínis niður til jarðar. „Þá spanast upp straumar í háspennulínum og rafmagnslínum og þær geta slegið út spennistöðvar og heilu orkuverin. Og það kemur alltaf öðru hverju fyrir,“ segir Gunnlaugur. Það geti liðið áratugir á milli slíkra atburða, en eigi ekki við um þessa hrinu.

Hann segir að það taki um tvo til þrjá daga fyrir hrinuna að ná til jarðar. „Menn voru að reikna það út að hún myndi berast til jarðar upp úr hádegi í dag. En það er ekki alveg nákvæmt vegna þess að menn sjá ekki þessar agnir. Menn sjá að það verður einhverskonar lítil sprenging á yfirborði sólarinnar og þá þeytist af stað efni, sem menn sjá ekki, en það er hægt að áætla nokkurn veginn hversu mikið það er og í hvaða átt það fer. Þannig geta menn reiknað út að þess var að vænta í dag.“

Því má bæta við að hrinan sé nú þegar komin til jarðar og farin að mælast á líniritinu í Segulmælingastöðinni í Leirvogi.

Þá má lesa um sólgosið á bloggsíðu Stjörnufræðivefsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert