iPhone-farsími Apple er nú mest seldi snjallsíminn í heiminum en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs seldust fleiri en 37 milljón iPhone-símar. Á sama tíma er áætlað að Samsung, sem hafði vinninginn á þriðja ársfjórðungi, hafi selt um 30 milljónir snjallsíma.
Rannsóknarfyrirtækið Kantar Worldpanel ComTech segir markaðshlutdeild Apple á snjallsímamarkaðnum hafa tvöfaldast á einu ári en hún var 44,9% á tímabilinu frá október og fram í desember.
Á sama tíma minnkaði hlutdeild smartsíma sem styðjast við Android-stýrikerfið úr 50% í 44,8%.
Hagnaður bandaríska tölvuframleiðandans Apple Corp. nam 13,06 milljörðum dala, 1.618 milljörðum króna, á síðasta fjórðungi ársins 2011, og jókst um 118% frá sama tímabili árið áður. Er þetta mun betri afkoma en sérfræðingar væntu.