Samfélagssíðan Twitter hefur komið sér upp tækni sem gefur henni tækifæri á að ritskoða innihald tísta eftir löndum. Það þýðir að síðan getur fjarlægt innihald síðu í einu landi þó allir aðrir í heiminum geti séð það.
Twitter sem ætlar sér stóra hluti á næstunni segir þetta auðvelda sér vöxtinn, þar sem viðhorf til tjáningarfrelsis geti verið mismunandi eftir löndum. Tiltekur svo dæmi um að í Frakklandi og Þýskalandi sé innihald sem lýsi stuðningi við nasista, bannað.
Twitter er ekki enn farið að nýta sér þessa tækni en segir í bloggi sínu að þegar og ef það gerist að vefurinn þurfi að útiloka innihald í tilteknu landi, verði leitast við að láta notandann vita.