iPhone æði greip um sig á síðasta ári á heimsvísu og við það komst Apple í þriðja sætið yfir þá farsímaframleiðendur sem seldu mest. Nokia er sem fyrr í efsta sæti en fyrirtækið seldi 113,5 milljónir síma.
Samkvæmt tölum frá International Data Corporation (IDC) var Apple í fimmta sæti árið 2010. Fyrirtækið tók hins vegar fram úr suður-kóreska fyrirtækinu LG og ZTE í Kína á síðasta ári yfir vinsælustu framsímaframleiðendurna.
Apple sló öll met í sölu á iPhone snjallsímum á fjórða fjórðungi síðasta árs.
Markaðshlutdeild Nokia á heimsvísu í fyrra var 27%. Samsung kom næst á eftir með 22,8%, en það seldi 97,6 milljónir síma. Apple hafnaði í þriðja sæti með 37,04 milljónir og er markaðshlutdeildin 8,7%.
Alls voru 427,4 milljónir síma fluttar út á heimsvísu á síðustu þremur mánuðum ársins 2011. Það er 6,1% aukning miðað við sama ársfjórðung árið 2010.