Stöðuvatn einangrað í 20 milljónir ára

Rússnesku vísindamennirnir fagna á Suðurskautslandinu.
Rússnesku vísindamennirnir fagna á Suðurskautslandinu. AP

Loksins eftir tveggja áratuga rannsóknir hefur rússneskum vísindamönnum tekist að bora niður að risastóru stöðuvatni undir íshellunni á Suðurskautslandinu. Hugsanlega er í vatninu að finna fornar lífverur sem gætu gagnast við leit að lífi á öðrum hnöttum.

Vatnið heitir Vostok og hafa vísindamenn um allan heim beðið spenntir eftir upplýsingum um lífríkið sem það kann að geyma. Vona þeir að í vatninu séu örverur sem hafi verið til frá því áður en ísöldin skall á. Þá telja þeir að með þeim upplýsingum verði hægt að leita að lífi á ísilögðum tunglum Júpíters og Satúrnusar sem og undir íshellunni á Mars.

„Þetta er eins og að skoða aðra plánetu, fyrir utan að þetta stöðuvatn tilheyrir okkar eigin,“ segir jöklafræðingurinn Robin Bell um árangur vísindamannanna.

Í tilkynningu frá rússnesku jarðfræðistofnuninni segir að vísindamennirnir hafi borað niður að yfirborði vatnsins á sunnudag. Forstöðumaður stofnunarinnar segir þennan fund sambærilegan við það þegar maður var fyrst sendur á tunglið.

„Enginn staður í heiminum hefur verið jafn lengi einangraður, í 20 milljónir ára,“ segir Lev Savatyugin, einn rússnesku jarðvísindamannanna. „Nú tökumst við á við það óþekkta.“

Hann segir vísindamennina nú freista þess að finna fornar örverur sem gætu aukið við þekkingu manna á þróun lífs á jörðinni.

„Áður en við sendum leiðangur til tunglsins Evrópu og Mars þurfum við að sjá hvað við finnum í vatninu,“ segir Savatyugin.

Vatnið Vostok er 250 kílómetra langt og 50 kílómetra breitt, og því álíka stórt og Ontaríó-vatn. Á Suðurskautslandinu eru um 400 stöðuvötn þekkt sem eru undir íshellunni.

Vísindamenn frá fleiri löndum, s.s. Bandaríkjunum og Bretlandi, ætla sér í svipaðar rannsóknir á vötnunum á Suðurskautslandinu.

Borinn sem notaður er til að komast að stöðuvatninu undir …
Borinn sem notaður er til að komast að stöðuvatninu undir íshellunni. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert