Ræktuðu upp úr 30.000 ára ávexti

Plantan Silene stenophylla
Plantan Silene stenophylla

Rússneskum vísindamönnum hefur tekist að rækta plöntur úr vef ávaxta sem talið er að íkornar hafi safnað í sífrera fyrir yfir 30.000 árum. Ávextirnir fundust grafnir í bökkum Kolmya-árinnar í Síberíu, þar sem víðtæk leit hefur jafnframt verið gerð að beinum mammúta.

Úr ávöxtunum tókst að rækta plöntu af gerðinni Silene stenophylla, að því er fram kemur á vef BBC. Vísindamennirnir segja að þetta séu langelstu efni sem nokkurn tíma hefur tekist að rækta upp af, en fyrra metið áttu Ísraelar, sem tókst að rækta pálma upp úr 2.000 ára gömlum fræjum.

Vísindamaðurinn sem stýrði rannsókninni, prófessor David Gilichinsky, lést aðeins örfáum dögum áður en niðurstöður hennar voru birtar í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Tilraunin hófst þegar vísindamennirnir fundu um 70 íkornahíði í árbökkunum.

Gefur von um að hægt sé að endurvekja útdauðar plöntur

„Öll híðin fundust á 20-40 metra dýpi miðað við yfirborð jarðar í dag, í jarðlögum þar sem einnig var að finna bein stórra spendýra s.s. mammúta, loðinna nashyrninga, vísunda, hrossa, dádýra og annarra dýrategunda frá tímum mammúta. Þar fundust einnig plöntuleifar,“ segir í greininni. Sýnt þykir fram á að sífreri hafi verið í jarðveginum í 30.000 ár. Íkornarnir virðast hafa geymt matarbirgðir sínar í kaldasta hluta híðis síns og þær frosið um leið og haldist frosnar síðan.

Á tilraunastofunni í Moskvu misheppnuðust tilraunir til að rækta beint upp af kornum ávaxtanna, en hins vegar tókst að nota vef þeirra til ræktunar. Plantan Silene stenophylla vex enn á síberísku túndrunni en þegar vísindamennirnir gerðu samanburð á núverandi plöntum og þeim sem endurlífgaðar voru á tilraunastofunni fundust smávægileg frávik í formi blaðanna og kyns blómanna.

Rannsóknin vekur vonir um að hugsanlega væri hægt með sömu tækni að vekja til lífsins plöntur sem eru útdauðar í dag, að því gefnu að dýr túndrunnar hafi geymt ávexti þeirra og fræ fyrir þúsundum ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert