Fyrir 50 milljónum ára var jörðin heitari en hún er í dag og á þeim tíma gengu hestar á stærð við ketti um skógana í Norður-Ameríku. Þeir minnkuðu á nokkurra þúsunda ára tímabili til að laga sig að heitara loftslagi. Þetta segja bandarískir vísindamenn.
Þetta frumhestakyn, sem kallað er Sifrhippus, varð í reynd smærra og smærra með tugþúsunda ára þróun, til þess að aðlagast því heita loftslagi sem var á þessum tíma, þegar mikið magn metans var í andrúmsloftinu, hugsanlega af völdum mikilla eldgosa. Vísindamennirnir segja að þetta gæti gefið vísbendingar um það hvernig hestar eins og við þekkjum þá í dag muni laga sig að hlýnandi veðurfari vegna loftslagsbreytinga.
Greindu steingervinga
Þeir segjast hafa komist á snoðir um tilvist þessara dverghesta eftir að hafa rannsakað og greint steingerðar hrossatennur sem fundust í Wyomingríki í vesturhluta Bandaríkjanna. Steingervingarnir sýni fram á að hestarnir hafi upphaflega verið stærri en smækkað með árunum.
Fjölmargar dýrategundir dóu út á þessu 175.000 ára tímabili á mörkum Paleósen- og Eósen-tímabilanna í jarðsögunni. Önnur urðu smærri að vöxtum til að lifa af þrengri kost. „Þetta nær yfir mjög langt tímabil og því er með sterkum rökum hægt að halda því fram að þarna sé náttúruval og þróun á ferðinni - að hlýnun loftslagsins og þróun þessara hesta hafi haldist í hendur,“ segir vísindamaðurinn Jonathan Bloch um rannsóknina, sem unnin var við Lincoln-háskóla í Nebraska.
Suðurskautið eins og hitabeltið
Á þessu tímabili í jarðsögunni var hitastig sjávar á suðurskauti um 23°C við yfirborð, svipað og í hitabeltinu í dag. Sifrhippus-hestakynið minnkaði um tæpan þriðjung framan af, og varð minnst svipað litlum heimilisketti að stærð og vó um 4 kg. Á síðustu 45.000 árunum stækkuðu hestarnir lítillega aftur.
Um þriðjungur þekktra spendýra á þessum tíma þróaðist með sambærilegum hætti og sum minnkuðu um allt að helming.
Vísindamenn segja að í ljósi þess að a.m.k. sumar spár hljóða upp á allt að 4°C hlýnun loftslags á næstu 100 árum gætum við átt von á því að einhverjar dýrategundir færu sömu leið í þróuninni.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Science.