Ný sprotafyrirtæki, byggð á rannsóknarverkefnum kennara og stúdenta við Háskóla Íslands, hafa skapað um 150 ný störf eftir efnahagshrunið. Velta þeirra er á annan milljarð króna. Þetta kom fram í máli Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu í dag.
Nýlega var tveimur sprotafyrirtækjum veitt einkaleyfi á grundvelli rannsóknaverkefna við skólann. Bæði varða greiningu og meðferð augnsjúkdóma og baráttu við blindu. Annars vegar er um að ræða nanótækni við lyfjagjöf sem gerir kleift að nýta augndropa í stað þess að þurfa að stinga í augað með nál og hins vegar þróun tækjabúnaðar til augnbotnagreiningar. Búnaðurinn hefur nú þegar verið seldur í fjórum heimsálfum, segir í tilkynningu.
Við brautskráningu 484 kandídata frá háskólanum í dag rakti Kristín dæmi um rannsóknaverkefni kennara og stúdenta sem sum hafa leitt til hagnýtingar. Hún sagði jafnframt að hugaraflinu væru engin takmörk sett. Skólinn myndi leggja kapp á að virkja þetta afl enn frekar með því að leiða saman vísindamenn og stúdenta og þekkingu og reynslu fólks úr atvinnulífinu með það fyrir augum að vinna nýjum hugmyndum brautargengi.
Rektor sagði við útskriftina í dag að þótt háskólanám hefði fyrir flesta hagnýtan tilgang, að skapa starfsgrundvöll og lífsafkomu, leyndist líka í hugskoti margra löngun til að leita og leiða fram nýja þekkingu, nýjar hugmyndir sem breytt gætu heiminum. Hún lagði áherslu á að slíkar hugmyndir þyrftu ekki að vera byltingarkenndar. Þær gætu eins verið einfaldar og smáar uppgötvanir sem gerðu lífið auðveldara og innihaldsríkara.
Rektor vakti athygli á þeim árangri sem skólinn hefði náð á undanförnum 5 árum með því að halda fast við stefnumál og markmið í starfinu þrátt fyrir þrengingar í kjölfar efnahagshruns. Hún sagði að skipan skólans á lista með 300 bestu háskólum heims í fyrra mætti þakka metnaði og ósérhlífni starfsfólks og stúdenta og öflugu samstarfi við vísindastofnanir og fyrirtæki hér heima og erlendis.
Frá því að fyrstu nemendurnir hófu nám í Háskóla Íslands fyrir 101 ári hefur á fimmta tug þúsunda nemenda tekið við prófskírteinum frá skólanum. Í dag brautskráðust alls 484 kandídatar með 487 próf (þrír kandídatar brautskráðust með tvö próf).
Úr grunnnámi brautskráðust 273, úr meistaranámi 170 og úr viðbótarnámi 44.
Brautskráningar eftir fræðasviðum í dag: Félagsvísindasvið 204, Heilbrigðisvísindasvið 53, Hugvísindasvið 92, Menntavísindasvið 54 , Verkfræði- og náttúruvísindasvið 84, alls 487 próf.