Fleiri Bandaríkjamenn nota nú snjallsíma en aðrar tegundir farsíma, en snjallsímum hefur fjölgað þar gríðarlega mikið að undanförnu. Næstum því helmingur fullorðinna Bandaríkjamanna á snjallsíma.
Þetta sýnir ný könnun, sem framkvæmd var af Pew Research Center. Þar kom í ljós að 46% Bandaríkjamanna, 18 ára og eldri, eiga og nota snjallsíma, en 41% notar hefðbundna farsíma. 12% eiga ekki farsíma.
Þetta er mikil aukning frá því í fyrra, þegar 35% áttu snjallsíma.
20% eiga síma með Android-stýrikerfi, 19% eiga iPhone og 6% eiga Blackberry. Þá eiga 2% Windows snjallsíma.
Aldraðir Bandaríkjamenn eru síður ginnkeyptir fyrir snjallsímum, en 13% þeirra sem eru 65 ára og eldri eiga slíka síma.