Sólgos gæti haft áhrif á fjarskipti

Kraftmikið sólgos varð í gær og nú er sólblossi (e. …
Kraftmikið sólgos varð í gær og nú er sólblossi (e. solar flare) á hraðferð til jarðar. Myndin er tekin af NASA í gær og sýnir vel gosið. NASA

Stærsti sólblossinn sem orðið hefur í fimm ár er nú á hraðferð til jarðar. Vísindamenn segja að blossinn gæti truflað fjarskipti, rafmagn og jafnvel flug.

Sólgos varð á þriðjudagskvöld og áhrifa þess mun þegar gæta á jörðinni á morgun, fimmtudag, líklega um hádegisbil. Vísindamenn hjá bandarísku Geim- og veðurspástofnuninni segja að blossinn magnist á ferð sinni frá sólu til Jarðar.

„Hann mun skella beint á nefið á okkur,“ segir Joe Kunches, vísindamaður hjá alþjóðlega sjávar- og veðurfarsráðinu.

Sólarstormurinn, eða sólblossinn (e. solar flares), mun hafa áhrif á jörðinni á morgun og föstudag, en hugsanlega munu fleiri blossar frá sólgosinu ná til jarðar á næstunni.

Vísindamenn bíða nú í ofvæni eftir að sjá hver áhrifin verða er rafmagnaðar agnir blossans skella á ógnarhraða á jörðinni.

Jákvæðu fréttirnar eru þær að mögnuð norðurljós verða á fimmtudagskvöld og föstudagsmorgun. Gallinn er hins vegar sá að það er fullt tungl svo ljósin verða ekki eins áberandi á himninum.

Vísindamenn telja að áhrifin geti einnig orðið önnur, þ.e. blossinn gæti truflað fjarskipti, GPS-staðsetningartæki og rafmagn. Árið 1989 sló kraftmikill sólblossi út rafmagni í Quebec í Kanada með þeim afleiðingum að 6 milljónir manna urðu rafmagnslausar.

Þá gætu gervitungl einnig orðið fyrir áhrifum.

Hið magnaða sólgos séð með myndavélum NASA.
Hið magnaða sólgos séð með myndavélum NASA. NASA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert