Konur börðust sem skylmingaþrælar

Colosseum í dag
Colosseum í dag Reuters

Boðið var upp á sérstaka leiðsögn um Colosseum-hringleikahúsið í Róm í dag til að varpa ljósi á konurnar sem komu við sögu þessarar alræmdu byggingar, í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna. Margar sögur eru til af ástum kvenna og skylmingaþræla, en konur börðust auk þess sem skylmingaþrælar sjálfar.

„Það átti bæði við um eiginkonur öldungadeildarmanna sem og almúgakonur, margar þeirra voru yfir sig hrifnar af skylmingaþrælunum. Þeir voru eins og fótboltakappar nútímans,“ hefur Afp eftir Lucillu Rossi, leiðsögumanni um Colosseum.

Rómverskir karlar lítt hrifnir

Vandinn er hins vegar sá, eins og svo gjarnan þegar kemur að sögu kvenna, að sagan var skráð af karlmönnum. Frásagnir af tengslum rómverskra kvenna og skylmingaþræla eru einungis skjalfestar út frá þeirra sjónarhóli. „Þeir voru afar gagnrýnir á konurnar, hegðun þeirra og tilfinningar, sérstaklega ef þær hegðuðu sér öðruvísi en til var ætlast af hefðarfrú. Þetta eru ekki sérlega hlutlausar frásagnir,“ sagði Rossi.

Skáldið Juvenal var einn þeirra sem gerðu ástir kvenna á skylmingaþrælum að yrkisefni. „Það er járnið sem þær elska,“ segir í einu ljóða hans. Hann skrásetti einnig slúðursögu um Eppiu, eiginkonu öldungadeildarmanns, sem sögð er hafa yfirgefið börn sín til að stinga af til Egyptalands með skylmingaþræl og það jafnvel þótt hann væri með „brotinn handlegg, beyglað nef og blóðhlaupin augu“.

Keisari bastarður skylmingaþræls?

Fástína yngri, eiginkona rómverska keisarans Markúsar Árelíusar, er einnig sögð hafa átt mörg ástarsambönd við skylmingaþræla. Sonur hennar Commodus (f. 161, d. 192), sem var einn blóðþyrstasti keisari Rómar, er í sumum annálum sagður hafa verið óskilgetið afkvæmi slíks ástafundar.

Konur komu þó ekki aðeins við sögu Colosseum í ástarævintýrum, því konur voru líka meðal skylmingaþræla og börðust til síðasta blóðdropa rétt eins og menn. Á mósaíkveggjum hringleikahússins má sjá tvær verur sem gætu verið kvenkyns skylmingaþrælar, með vopn á lofti og dautt dýr í eftirdragi.

Rossi segir að markmiðið með því að setja konur í hringinn hafi ekki síst verið að koma áhorfendum á óvart með því að bregða út af vananum. Það hafi einnig átt við þegar óvenjuleg dýr frá Afríku, eins og gíraffar og flóðhestar, voru sett í hringinn.

Konur af öllum stéttum í Róm eru sagðar hafa hrifist …
Konur af öllum stéttum í Róm eru sagðar hafa hrifist af skylmingarþrælunum í Colosseum.
Hið forna Colosseum Rómarborgar séð úr lofti
Hið forna Colosseum Rómarborgar séð úr lofti Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert