Íslenskur broddgöltur á fljúgandi ferð

Skjáskot úr leiknum um broddgöltinn Þór.
Skjáskot úr leiknum um broddgöltinn Þór. mbl.is

Sífellt fleiri íslenskir tölvuleikir fyrir snjallsíma og spjaldtölvur líta dagsins ljós. Sá nýjasti nefnist Broddgölturinn Þór (e. Thor the Hedgehog) og kom út í vikunni. Að baki honum stendur aðallega einn maður, Ólafur Egilsson, og ótal vinnustundir undanfarna tíu mánuði.

Um er að ræða fyrsta tölvuleik sem Ólafur, sem er tölvunarfræðingur að mennt gerir. Hann segir að það hafi verið nokkuð flókið ferli að koma sér inn í leikjagerð sem þessa en ljóst sé að gerð við næsta leik verði töluvert einfaldari. Að mati Ólafs hefði það líklega tekið hann um fimm mánuði að klára leikinn í fullu starfi, en hann hefur unnið að honum í hálfu starfi.

Auk Ólafs komu eiginkona hans, Kate, og Haraldur bróðir hans að gerð leiksins, en þau aðstoðuðu við við grafíkina. Þá sömdu félagar hans hjá Musemantic tónlist fyrir hann.

Tölvuleikurinn er ætlaður öllum aldurshópum og inniheldur broddgöltinn Þór, helíumblöðrur og rottu. Markmiðið er að færa tiltekna hluti til eftir borðinu og láta þá detta ofan í kistu. Í leiknum eru 108 borð og segir Ólafur að síðustu tuttugu borðin hafi tekið svolítið á, þ.e. að reynt hafi mikið á ímyndunaraflið.

En þó um sé að ræða fyrsta leik Ólafs er ekki þar með sagt að þetta sé sá síðasti. Hann segir að á meðan leikjagerðinni stóð hafi hann fengið ótal hugmyndir. Hann hafi mátt hafa sig allan við að einbeita sér að broddgeltinum og skrifa hinar niður á blað. Nú þegar vinnunni við leikinn er lokið er kominn tími til að fara yfir hugmyndirnar að nýju.

Ólafur fluttist til Edinborgar í Skotlandi fyrir tveimur árum ásamt konu sinni og dóttur þeirra. Hann stofnaði fyrirtækið Glovik Ltd. fyrr á þessu ári og sér það um að gefa leikinn út. Stórfyrirtækið Google sér svo um að dreifa leiknum í gegnum Google Play, sem flestir Android snjallsímanotendur þekkja líklega betur sem Android Market.

En þó svo leikurinn sé kominn á markað segir Ólafur að það sé aðeins hálfleikur. Nú tekur við markaðssetning sem geti einnig tekið sinn tíma.

Hér má nálgast Thor the Hedgehog

Broddgölturinn Þór.
Broddgölturinn Þór. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka