Norðmenn og Kanadamenn deila nú um skip norska landkönnuðarins Roald Amundsen, sem í upphafi 20. aldar fór fyrstur mann á Suðurpólinn. Skipið, sem kallast Maud, er hálfsokkið í Cambdridge flóa við Nanavut í Norður-Kanada, en Norðmenn vilja fá það heim á safn.
Norðmenn sóttu um heimild til að færa skipið heim í fyrra, en því var hafnað í desember. Yfirvöld í Kanada rökstyðja mál sitt þannig að Maud sé mikilvægur hluti af menningararfleifð Kanada. Norðmaðurinn Jan Wanggard berst hinsvegar fyrir því að endurheimta skipið til Noregs og hefur áætlanir um að setja skipið upp á safni í útjaðri Ósló.
Amundsen sigldi Maud á könnunarleiðöngrum um Norðausturleiðina, milli Atlantshafs og Kyrrahafs meðfram norðurströnd Rússlands, á árunum 1918 og 1920. Honum tókst hinsvegar ekki það ætlunarverk sitt að ná á Norðurpólinn. Amundsen hvarf síðar í júní 1928 og er talið víst að flugvél sem hann var um borð í í björgunarleiðangri hafi hrapað í Barentshafið. Lík hans fannst aldrei.
Könnunarskipið Maud var selt Hudson Bay skipafélaginu í Kanada og var notað bæði sem vöruhús og útvarpsstöð áður en það sökk árið 1930. Sveitarfélagið Asker í Noregi keypti skipið á 1 dollar árið 1990 og tryggði sér um leið heimild til að flytja það burt, en sú heimild rann út áður en af því varð.
Beiðni um endurnýjun heimildarinnar var sem fyrr segir hafnað í desember en Jan Wanggard mun í dag mæta fyrir kanadíska nefnd um menningarverðmæti í Ottawa í von um að fá þeirri ákvörðun hnekkt. Að sögn BBC hefur nefndin heimild til að draga það í 6 mánuði að kveða upp úrskurð og er talið að í millitíðinni verði reynt að finna kanadískan kaupanda að skipsflakinu.