Bandarískir unglingar eru afar iðnir við að skrifa sms-skilaboð og margir þeirra eiga snjallsíma, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem birt var í dag.
Að meðaltali sendu unglingar á aldrinum tólf til sautján ára sextíu skilaboð á dag í fyrra, sem er aukning um tíu skilaboð á dag frá 2010, samkvæmt rannsókn Pew Internet og American Life Project.
Eldri stúlkur eru einna duglegastar við að skrifa skilaboð en þær senda um 100 skilaboð á dag en strákar um 50 á dag. Segir í rannsókninni að svo virðist sem skilaboð séu helsta leið bandarískra ungmenna til að hafa samskipti sín á milli og við fjölskyldur sínar.
23% þeirra 799 ungmenna sem tóku þátt í rannsókninni, sem stóð yfir frá því í apríl í fyrra þar til í júlí, áttu snjallsíma. 77% áttu farsíma sem er svipað hlutfall og árið á undan.