CCP frumsýnir nýjan tölvuleik

DUST 514 er fjölspilunar-skotleikur. Í leiknum berjast spilarar um landsvæði, …
DUST 514 er fjölspilunar-skotleikur. Í leiknum berjast spilarar um landsvæði, auðlindir og áhrif og nota til þess herkænsku og áræðni. Teikning/CCP

CCP HF mun frumsýna nýjan tölvuleik sem fyrirtækið hefur verið með í þróun síðustu fjögur ár, DUST 514, á upphafsdegi Fanfest-hátíðar fyrirtækisins í Hörpu fimmtudaginn 22. mars. Þarna verður almenningi og blaðamönnum í fyrsta sinn gefinn kostur á að spila leikinn, sem koma mun út síðar í ár fyrir PlayStation leikjavélar SONY. Yfir 70 erlendir blaðamenn eru staddir hérlendis vegna Fanfest hátíðarinnar og frumsýningar leiksins. Einstakir eiginleikar DUST 514 og hvernig útgáfu leiksins er háttað hefur þegar vakið athygli á útgáfunni í erlendum fjölmiðlum, segir í fréttatilkynningu frá CCP.

Fjölspilunar skotleikur

Fyrir tæpu ári síðan, í júní 2011, tilkynnti CCP um samstarf sitt við SONY leikjaframleiðandann um útgáfu á öðrum leik fyrirtækisins; fjölspilunar-skotleiknum DUST 514. Í upphafi þessa mánaðar tilkynnti CCP að DUST 514 yrði fáanlegur öllum PlayStation 3 eigendum án endurgjalds gegnum PlayStation Network SONY – og yrði þar með fyrsti leikur sinnar tegundar til að styðjast við nýtt viðskiptamódel, svokallað „Free to play“-útgáfu. Leikurinn sjálfur er þá fáanlegur án greiðslu, en tekna aflað með sölu á varningi og ýmsum viðbótum sem opnar fyrir frekari möguleika og gera spilurum hans kleift að fá enn meir út úr upplifun sinni.

Með því að gera DUST 514 aðgengilegan án endurgjalds, og í ljósi samstarfsins við SONY, stendur CCP fyrir dyrum risastór markaður PlayStation 3 leikjatölvueiganda um heim allan, segir í tilkynningu.

Barist um landssvæði og auðlindir

DUST 514 er fjölspilunar-skotleikur. Í leiknum berjast spilarar um landsvæði, auðlindir og áhrif og nota til þess herkænsku og áræðni. Leikurinn gerist á plánetum í sama sýndarheimi og EVE Online, fjölspilunarleik CCP sem gefinn var út árið 2003. Með því að gerast í sama heimi tengir DUST 514 saman leikjaheim PC og leikjatölva.

Á meðan spilarar EVE Online stjórna geimskipum EVE heimsins sjá spilarar DUST 514 um atburðarrásina á yfirborði pláneta. Spilarar leikjanna geta þannig hvor sig haft áhrif á framvindu mála í báðum leikjunum.

CCP var stofnað árið 1997 og er með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfar rúmlega 500 manns í Reykjavík og á skrifstofum þess í Atlanta, Shanghai og Newcastle. CCP gefur út fjölspilunarleikinn EVE Online og hefur selt áskrifendum aðgang að leiknum undanfarin níu ár. Auk útgáfu EVE Online og DUST 514 vinnur CCP að þróun vampíruleiksins World of Darkness sem byggir á samnefndum teiknimyndasögum.

Fanfest í Reykjavík

EVE Fanfest er árleg hátíð og ráðstefna tölvuleikjaframleiðandans CCP. Hátíðin fer fram í áttunda sinn í Reykjavík dagana 22.-24. mars, í fyrsta sinn í Hörpu. Búist er við rúmlega þúsund manns til landsins á hátíðina; spilurum tölvuleiksins EVE Online, blaðamönnum og starfsmönnum tölvuleikja- og afþreygingariðnaðarins víða að úr heiminum.

Hátíðin þjónar margvíslegum tilgangi fyrir CCP og samfélag EVE Online spilara í heiminum. Á henna koma spilarar leiksins, sem sumir hverjir hafa aldrei hist í raunheimum, allstaðar að úr veröldinni saman í Reykjavík, fagna og ráða ráðum sínum. Svarnir óvinir í leiknum fallast í faðma á börum borgarinnar og hið lýðræðislega kjörna CSM ráð spilara leiksins fundar á meðan hátíðin fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert