Flughetju enn leitað 75 árum eftir hrap

Bandaríska flughetjan Amelia Earhart sést hér við stýri flugvélar sinnar …
Bandaríska flughetjan Amelia Earhart sést hér við stýri flugvélar sinnar árið 1930. AFP

Bandaríkjamenn hétu því í dag að leggja sitt af mörkum við að leysa ráðgátuna sem enn umlykur hvarf fluggoðsagnarinnar Amelíu Earhart, sem hvarf fyrir 75 árum. Nýleg greining á ljósmynd sýnir að flugvél Earhart kunni að hafa hrapað á afskekktri eyju í Kyrrahafinu. Örlög Earhart eru meðal þekktustu óleystu ráðgátna 20. aldarinnar.

Earhart lagði upp árið 1937 frá Papúa Nýju-Gíneu og ætlaði sér að fara meðfram miðbaug hringinn umhverfis jörðu. Earhart og fylgdarmaður hennar, Fred Noonan, sáust hinsvegar aldrei aftur, þrátt fyrir afar umfangsmikla leit sem bandarísk stjórnvöld kostuðu í miðri kreppunni miklu. 

Ólíkleg hetja á erfiðum tímum

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Earhart hafi verið þjóðhetja. Hún sagðist í dag styðja heilshugar nýjan leiðangur sem til stendur að fara í leit að flaki flugvélar hennar. „Amelia Earhart var kannski ólíkleg kvenhetja hjá þjóð sem mátti muna betri daga, en hún fangaði anda Bandaríkjanna sem voru að vaxa og þroskast og öðlast sjálfstraust til að verða leiðtogi í fallvaltri veröld. Hún gaf fólki von og veitti því innblástur til að eiga stóra og djarfa drauma," sagði Clinton í dag.

Það eru flugáhugamenn frá The Internatioal Group for Historic Aircraft Recovery sem skipuleggja leiðangurinn sem farinn verður í sumar og mun m.a. leiða þá í köfun í Kyrrahafinu. Kveikjan er ljósmynd sem fannst af eyjunni Nikumaroro, sem tilheyrir Kiribati eyjaklasanum. Myndin var tekin árið 1937 af Bretum sem voru að íhuga hvort eyjan hentaði til byggðar. Á myndinni sést blettur sem við nánari skoðun gæti verið lendingarbúnaður flugvélar.

Lifðu þau á eyjunni?

Finnist leifar flaksins verður næsta spurning væntanlega hvort Earhart og Noonan hafi dáið samstundis, eða hvort þau hafi náð að lifa á Kyrrahafseyjunni, eins og margir hafa velt vöngum yfir um langa hríð.

Robert Ballard, haffræðingurinn sem fann flak Titanic á sjávarbotni árið 1985, hefur boðið fram aðstoð sína við leitina. Ballard, sem fann einnig flök herskipanna USS Yorktown og Bismarck úr síðari heimsstyrjöld, segist þó vonlítill um að flugvélin finnist. „Ef þú vilt dæmi um leit að nál í heystakki, þá er þetta efst á listanum þegar kemur að leiðöngrum á sjávarbotni."

Ódagsett mynd af Amelíu Earhart, fyrstu konunni til að fljúga …
Ódagsett mynd af Amelíu Earhart, fyrstu konunni til að fljúga yfir Atlantshafið, á flugvél sinni. mbl.is
Frá eyjaklasanum Kiribati.
Frá eyjaklasanum Kiribati.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert