Gerðar hafa verið endurbætur á SMS-sendingum í gegnum vefsíðuna Já.is. Frá og með deginum í dag munu þeir sem senda SMS af síðunni þurfa að auðkenna sig áður en þeir geta sent skeyti í íslensk farsímanúmer. Þá verður þjónustan héðan í frá ekki ókeypis lengur.
Ókeypis SMS-sendingar í gegnum vefinn hafa staðið íslenskum netnotendum til boða í áraraðir. Í tilkynningu frá Já.is segir hins vegar að brögð hafi verið að því í gegnum tíðina að þjónustan hafi verið notuð til að senda nafnlaus skilaboð í farsíma fólks. Héðan í frá munu notendur þjónustunnar auðkenna sig með innskráningu og svokölluðu „SMS handartaki“.
Rukkað um 6-8 krónur
SMS-skeytin sem send verða af Já.is verða auðkennd og þau munu birtast móttakandanum á sama hátt og ef væru send úr farsíma sendanda. Þessi breyting felur það jafnframt í sér að hægt verður að svara þeim sem sendi skeytið beint. Önnur breyting er að SMS skeyti af Já.is verða héðan í frá gjaldfærð. Verð fyrir sendingu hvers skeytis verður á bilinu 6-8 kr sem er um 30% minna en það kostar í gjaldskrá símafyrirtækjanna.
Hingað til hafa SMS skeytin verið ókeypis en þeim hafa í staðinn fylgt auglýsingar. Póst- og fjarskiptastofnun vakti hins vegar athygli Já á því undir lok síðasta árs að auglýsingar mætti einungis senda með SMS-skeytum þegar móttakandi skeytisins hefði veitt samþykki sitt fyrir þeim fyrirfram.
Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já segir að fyrirtækið hafi viljað finna leið til að þurfa ekki að hætta að bjóða sms-sendingar af Já.is þegar þessi ábending Póst- og fjarskipastofnunar barst. Ákveðið hafi verið að líta á þetta sem tækifæri til breytinga.