Fornleifafræðingar hafa fundið einhvern mesta fjölda fornra peninga sem fundist hefur í Bretlandi við uppgröft í borginni Bath í suðvesturhluta landsins. Um er að ræða meira en 30 þúsund rómverska silfurpeninga en uppgröfturinn fer fram á stað þar sem til stendur að byggja nýtt hótel í borginni.
Talið er að peningarnir séu frá því á þriðju öld eftir Krist og fundust þeir rúmlega eitt hundrað metra frá hinum sögufrægu rómversku baðhúsum í borginni. Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að sérfræðingar telji að um sé að ræða fimmta stærsta fund fornra peninga í Bretlandi og stærsta fund rómverskra peninga.
Peningarnir hafa verið sendir til Breska þjóðminjasafnsins til frekari rannsókna en þeir eru fastir saman í einum haug samkvæmt fréttinni og það geri það erfiðara en ella að bera full kennsl á þá. Gert er ráð fyrir að það verkefni geti tekið allt að einu ári.