Vísindamenn segja ný gögn leiða í ljós að forfeður okkar notuðu eld fyrir um milljón árum, mun fyrr en áður hefur verið talið. Setlög sem fundist hafa í Wonderwerk-hellinum í Suður-Afríku benda til að eldur hafi ítrekað verið kveiktur á því svæði.
Það að kveikja eld og nota hann er talið hafa verið stórt skref í þróun mannsins og samfélaga. Með eldinum var hægt að elda mat og búa til verkfæri. Verkfæri sem fundist hafa í hellinum í Suður-Afríku benda til að þar hafi forfaðir nútímamannsins, Homo erectus, búið en sú tegund var uppi fyrir um 1,8 milljónum ára.