Gönguferð góð gegn þunglyndi

Að fara reglulega í gönguferð getur haft mikið að segja við að draga úr þunglyndi, samkvæmt niðurstöðum skoskra vísindamanna. Þegar er sannað að kröftug líkamsrækt getur komið í veg fyrir þunglyndi en lítið hefur verið rannsakað hversu mikil áhrif áreynsluminni æfingar, svo sem gönguferðir, hafa.

Rannsókn Skotanna var birt í vísindatímaritinu Mental Health and Physical Activity og þar kemur fram að gönguferð geti haft mikil áhrif á þunglyndi. Talið er að 1 af hverjum tíu glími við þunglyndi einhvern tímann á lífsleiðinni. Hægt er að meðhöndla alvarlegt þunglyndi með lyfjum en læknar eru einnig í ríkari mæli farnir að ávísa hreyfingu til þeirra sem glíma við vægara þunglyndi.

Vísindamennirnir segja að það góða við göngur sé að flestir geti stundað þær, þær kosti ekki krónu og auðvelt sé að koma þeim við í hversdagslífi flestra.

Þeir segja að enn eigi eftir að rannsaka hversu lengi og hversu langt þurfti að ganga til að það fari að skipta máli.

Frétt BBC um rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert