Snjallsími sem sér í gegnum veggi og föt

Innan skamms gætu almennir snjallsímar búið yfir röntgen tækni.
Innan skamms gætu almennir snjallsímar búið yfir röntgen tækni.

Til þessa hefur enginn nema ofurhetjur teiknimyndasagna búið yfir röntgensjón til að horfa í gegnum veggi, en það gæti brátt breyst því vísindamenn við Háskólann í Texas hafa þróað örgjörva sem gerir notendum snjallsíma kleift að „sjá" í gegnum hluti.  

Örgjörvinn byggir á s.k. terahertz tækni, sambærilegri og notast er við í nýjum öryggisskönnum á alþjóðaflugvöllum, sem sjá í gegnum föt. Vísindamennirnir þróuðu kísilflögu sem er bæði örsmá og ódýr, en getur greint terahertz-rafsegulbylgjur. Slíkar bylgjur hafa innan við 1 mm öldulengd og hafa því hærri tíðni en örbylgjur, en lægri en innrautt ljós, sem t.d. er notað í nætursjónauka. 

Röntgentæki í vasanum

Þessi tækni er innbyggð í flögur sem búnar eru til með hjálp s.k. CMOS (Complementary Metal-Oxide Semiconductor) tækni, en slíkar flögur er m.a. að finna í tölvum, snjallsímum og sjónvörpum. Flagan getur því greint rafsegulbylgjurnar og varpað mynd af því sem greinist á t.d. snjallsímaskjá. 

Rafmagnsverkfræðiprófessorinn Kenneth O segir í yfirlýsingu frá Texas-háskóla í dag að CMOS tæknin sé nógu ódýr til að hægt sé að fjöldaframleiða svona flögur. „Samspil CMOS og terahertz tækninnar gerir það að verkum að þú getur sett þessa flögu og sendi aftan í snjallsíma og þannig búið til vasatæki sem getur séð í gegnum hluti."

Hámark úr 10 cm fjarlægð

Að sjálfsögðu vakna spurningar um friðhelgi einkalífsins komist tækni sem þessi í allra hendur. Prófessorinn segir að það eigi ekki að vera áhyggjuefni með þessari tækni því rannsóknarteymi hans hafi takmarkað sig við að þróa flögur sem geti séð í gegnum hluti úr hámark 10 cm fjarlægð.

Vísindamennirnir benda á að þessi tækni geti verið hagkvæmt og nýst afar vel, t.d. fyrir lækna sem geti þannig auðveldlega séð inn í líkama sjúklinga. „Með þessu höfum við opnað almennum neytendum áður óséðan aðgang að rafsegulsviðiðnu," sagði O. „Það er hægt að gera alls konar hluti með þessu, sem við höfum ekki einu sinni leitt hugann að." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert