Tilkynnt var í dag að söngkonan Björk Guðmundsdóttir verður listamaður ársins á Webby-verðlaununum sem afhent verða síðar í þessum mánuði. Grínistinn Louis C.K. verður Maður ársins. Verðlaunin eru afhent þeim sem skara fram úr á einhverju sviði tengt netheimum.
Grínistinn Louis C.K. fær verðlaunin fyrir að setja myndband af uppistandi sínu á vefsíðu og rukka litla 5 dali fyrir áhorf. Enginn trúði að fólk myndi kaupa slíkt efni á netinu og því kom öllum á óvart að innan tveggja vikna hafði C.K. þénað 1 milljón dala á uppátækinu. Fær hann verðlaunin fyrir að kynna til sögunnar þessa dreifingarleið.
Björk hlýtur verðlaunin m.a. fyrir plötuna Biophilia sem var margmiðlunarverk er kom út á síðasta ári.
Smáforritið (e. app) Instagram var valið uppfinning ársins en Facebook keypti forritið nýlega á 1 milljón dali. Með forritinu er á einfaldan hátt hægt að deila ljósmyndum.
Verðlaunin verða afhent 21. maí næstkomandi í New York. Hefð er fyrir því að þakkarræður séu ekki lengri en fimm orð.
Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, fyrir vefsíðu, gagnvirka auglýsingu og fjölmiðlun, kvikmyndir og myndbönd á netniu og farsíma og/eða smáforrit.
Bæði dómnefnd og áhugamenn um netið velja sigurvegara.