Fimmtán milljónir barna í heiminum, eða eitt af hverjum tíu, fæðist fyrir tímann ár hvert. Rúmlega ein milljón þeirra deyja. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Sameinuðu þjóðirnar styrktu.
Að fæðast fyrir tímann er helsta ástæða þess að ungbörn deyja í heiminum. Fyrirburafæðingum, þegar barn fæðist fyrir 37 viku meðgöngu, er að fjölga.
Flestir fyrirburar fæðast í Suður-Asíu en þar tíðni fyrirburafæðinga 13,3%. Þá koma Afríkuríki sunnan Sahara en þar er tíðnin 12,3%. Samanlagt fæðast um 60% fyrirbura heimsins í Asíu og Afríku.
Tíðni fyrirburafæðinga er hæst í Afríkuríkinu Malaví en rannsóknin náði til 184 landa. Þar er tíðni fyrirburafæðinga 18%. Þar á eftir fylgja Kongó og Simbabve.
Fæstar fyrirburafæðingar verða í Hvíta-Rússlandi.
Oft eru ástæður þess að börn fæðast fyrir tímann óþekktar en þó er talið að erfðir, hár blóðþrýstingur, sykursýki og sýkingar hvers konar hafi þar áhrif.