Evrópa stefnir til Júpíters

Gasrisinn Júpíter.
Gasrisinn Júpíter.

Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, hefur ákveðið að ráðast í metnaðarfullan leiðangur út í geim. Leiðangurinn gengur undir heitinu JUICE, eða Jupiter Icy Moons Explorer og eins og nafnið gefur til kynna er markmiðið að senda geimfar til að rannsaka ístungl Júpíters. Talið er að undir yfirborði þeirra gætu verið höf og hugsanlega lífvænlegar aðstæður.

Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að um sé að ræða fyrsta stóra geimleiðangurinn sem farinn verður í Cosmic Visions geimáætlun ESA. Geimfarið sem notar verður mun vega rétt undir 5 tonnum og verður meðal þeirra þyngstu sem send hafa verið út í ytra sólkerfið, en því verður skotið á loft með Ariane 5 eldflaug í júní árið 2022, frá Kourou geimferðamiðstöð Evrópu í Frönsku-Gajana í Suður-Ameríku. Það mun taka geimfarið 8 ár að komast á áfangastað, þar sem það dvelur svo við rannsóknir í a.m.k. 3 ár.

Ístunglin þrjú sem geimfarinu er ætlað að rannsaka eru Evrópa, Ganýmedes og Kallistó, en það síðastnefnda er gígóttasti hnöttur sólkerfisins að því er segir á Stjörnufræðivefnum. Leiðangurinn mun væntanlega leiða í ljós hvort sá grunur sé réttur að undir ísskorpum tunglanna séu höf þar sem mögulega gæti þrifist líf. „Í leiðinni öðlumst við dýpri skilning á þeim aðstæðum sem ríktu við myndun Júpíters og tunglanna en segja má að kerfið sé einskonar lítil útgáfa af sólkerfi. Við munum því líklega læra sitthvað um tilurð jarðar í leiðinni,“ segir á Stjörnufræðivefnum. 

Upphaflega átti geimfar á vegum NASA að fljúga með JUICE og fara á braut um Evrópu, en NASA varð að falla frá þeim áformum því þau þótt of kostnaðarsöm, skv. Stjörnufræðivefnum. Evrópa er því í broddi fylkingar við rannsóknir á sólkerfinu, og á næstunni munu aðildarríki ESA sækja um það að fá að smíða mælitæki í geimfarið. 

Nánari upplýsingar um rannsóknarleiðangurinn auk ýmiss fróðleiks um stjörnufræði, þar á meðal um fyrri rannsóknir á tunglum Júpíters, má finna á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert