Fáir nota öryggistæki á Facebook

Reuters

Margir notendur Facebook hafa enga þekkingu á notendaskilmálum vefsins og gera engar ráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar sínar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Hún leiddi í ljós að 13 milljónir notenda Facebook nota ekki þau tæki sem boðið er upp á á síðunni til að tryggja öryggi gagna sinna. Þá kom í ljós að 4,7 milljónir Bandaríkjamanna geyma t.d. á síðunni óvarðar upplýsingar um hvar þeir verði ákveðna daga, sem býður hættunni á innbrotum heim.

Þá kom einnig í ljós að 4,7 milljónir notenda hafa „líkað“ við síður á Facebook um heilsu og læknismeðferðir en slíkar upplýsingar gætu tryggingafélög t.d. notað gegn þeim.

Rannsóknina gerði óháð rannsóknarstofnun. Í henni kom ennfremur fram að sjö milljónir heimila sem nota Facebook glímdu við einhver vandamál varðandi aðgang að Facebook-síðum sínum í fyrra, t.d. að aðrir voru að nota þeirra aðgang án leyfis og að þeir hefðu sætt hótunum og áreiti á Facebook. Hafði orðið 30% aukning í slíkum tilvikum milli rannsóknaráranna 2010 og 2011.

Aðeins 37% notenda segjast nota þau öryggistæki sem boðið er upp á á Facebook til að takmarka aðgengi annarra að upplýsingum þeirra.

„Facebook hefur gjörbreytt því hvernig fólk á samskipti hvað við annað en hefur um leið orðið uppspretta gríðarlegs gagnabanka með persónulegum upplýsingum sem hægt er að dreifa,“ segir Jeff Fox, einn höfunda skýrslunnar.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að Facebook safnar umtalsverðu magni af upplýsingum frá notendum sínum sem þeir gera sér ekki grein fyrir. „Einhverjir notendur Facebook gætu orðið undrandi að vita að í hvert sinn sem þeir fara inn á einhverja síðu eða „líka“ við eitthvað, fær Facebook skýrslu um málið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert