Rannsókn á Grænlandsjökli sem staðið hefur yfir sl. 10 ár bendir til að jökullinn bráðni hægar en óttast hafði verið. Það þýðir að hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar verður minni en áður var talið.
Mikið hefur verið fjallað um bráðnun jökla á norðurhveli jarðar á síðustu árum. Þar skiptir Grænlandsjökull mestu máli enda er þar gríðarlegt vatnsmagn bundið í ís.
Þessi rannsókn, sem birtist í tímaritinu Science, bendir til að bráðnun Grænlandsjökuls verði hægari en áður var talið og að yfirborð sjávar hækki um 80 cm fram til ársins 2100, en ekki um tvo metra eins fyrri rannsóknir bentu til.
Vísindamennirnir byggðu niðurstöður sínar á gervihnattarmyndum sem teknar voru á árunum 2001-2011. Í skýrslunni segir að meginísinn í Grænlandsjökli hreyfist tiltölulega hægt, milli 9-100 metra á ári. Við jökulsporðana sé hreyfingin hins vegar 300-1.600 metrar á ári.
Þessi tiltölulega hæga hreyfing á ísnum þýðir að jökullinn skilar minna magni af ís út í sjó á ári en jöklar sem hreyfast hraðar.
Twila Moon, sérfræðingur hjá Háskólanum í Washington, segir að það sé enn mörgum spurningum ósvarað um áhrif hækkandi hitastigs á Grænlandsjökul. Breytingarnar á jöklinum séu hægar og því sé erfitt að fá fullnægjandi mynd af langtímaáhrifum hlýnunar.