Ljósnet til að mæta kröfum heimila

Síminn hefur í samstarfi við Mílu hafið ljósnetsvæðingu á suðvesturhluta landsins og er markmiðið að um 100.000 heimili geti tengst ljósneti Símans árið 2014, eða um 80% landsmanna. Þegar geta um 46.000 heimili á höfuðborgarsvæðinu tengst ljósnetinu.

Þetta eru heimili sem voru áður tengd breiðbandi Símans sem nú hefur verið breytt í ljósnet. Um er að ræða nýja tækni sem leysir hina eldri af hólmi. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir í samtali við mbl.is, að Borgarnes og Grindavík séu á meðal þeirra svæða sem verði tengd ljósneti Símans á næstu vikum.

Hagkvæm uppbygging

Ljósleiðaratæknin og ljósnetstæknin eiga margt sameiginlegt en Sævar segir að ljósnetsuppbyggingin sé hagkvæmari og fljótvirkari leið til að bjóða upp á öflugar nettengingar og gagnvirkt IP sjónvarp til fólks. Koparinn, sem þegar sé til staðar í jörðu sé nýttur ásamt ljósleiðara í götuskáp. Þá fylgi lítið jarðrask ljósnetinu og því verði fólk fyrir litlum truflunum af jarðframkvæmdum. Þetta eigi sérstaklega við uppbygginu ljósnetsins í rótgrónari hverfum. Í nýjum hverfum þykir aftur á móti hagkvæmara að tengja heimilin beint við ljósleiðara.

„Þetta er fjögurra milljarða kr. fjárfesting fyrir Símann og Mílu,“ segir Sævar og bætir við að kostnaðurinn við að tengja hvert heimili nemi um 40.000 krónum. Það teljist vera mjög hagkvæm uppbygging fyrir svo mikinn hraða inn á hvert heimili.

Netið verður að virka

Sævar segir aðspurður að tæknilegur munur á ljósnetstenginu og ljósleiðaratenginu í dag sé lítill sem enginn. „Munurinn liggur hins vegar í þeirri þjónustu sem og stöðugleika í kringum þá tækni sem við erum að veita núna. Við teljum að þetta sé hagkvæmari uppbygging og þar af leiðandi er verðið lægra og við getum veitt betri þjónustu,“ segir Sævar. Með ljósnetinu sé hægt að fá sama hraða og ljósleiðarinn bjóði en með hagkvæmari hætti.

Þá segir Sævar að Síminn hafi náð góðum tökum á því að tryggja gæði sjónvarpsútsendinga og netsins. „Það eru gerðar gríðarlegar kröfur um að netið verði að virka og við viljum standa undir því,“ segir Sævar.

„Við erum einfaldlega að fara í ljósnetið til að ná til 100.000 heimila, þá náum við að veita 100 megabita tengingu inn á hvert heimili. Það er m.a. til að uppfylla kröfur sem heimilin eru eða munu gera til framtíðar,“ segir Sævar og bætir við að þörfin fyrir öflugar tengingar fari vaxandi. Þetta snúist ekki bara um hraða til notandans heldur einnig hraðann frá notandanum. Aðspurður segir hann að þörf notenda Símans sé nú um 50 megabita tengingar.

Í tilkynningu frá Símanum segir að þörfin fyrir bandbreiðari tengingar hafi vaxið mikið en til marks um það hafi gagnanotkun viðskiptavina Símans í gegnum xDSL tengingar aukist um tæplega 400% á einungis þremur árum. Í núverandi útfærslu bjóði ljósnetið allt að 100 megabita hraða á sekúndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert