Hlýnun jarðar má meðal annars rekja til vindgangs risaeðla, sem gengu um jörðina fyrir allt að 250 milljónum árum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar breskra vísindamanna sem birtar eru í vísindatímaritinu Current Biology.
Um er að ræða tímabil sem nefnist Mesozoic í jarðsögunni, tímabil tröllvaxinna grasbíta á borð við hinn geysistóra Brontosaurus, sem nærðust á laufmiklum gróðri og gáfu frá sér feikimikið magn metangass, eða allt að 520 milljónir tonna á hverju ári.
Það er álíka mikið magn og framleitt er í dag.
„Útreikningar okkar benda til þess að risaeðlurnar hafi framleitt meira metangas en það sem sleppur út í andrúmsloftið í dag, þó að við leggjum saman það sem kemur af náttúrulegum völdum og það sem er af völdum iðnaðar,“ segir einn rannsakendanna, Dave Wilkinson, prófessor við Liverpool John Moores-háskólann.