Snjallsíminn ómissandi

Snjallsímar eru miklu meira en einfaldir spjallsímar.
Snjallsímar eru miklu meira en einfaldir spjallsímar. AFP

Þeim fer fjölgandi í Bandaríkjunum sem segjast ekki geta lifað án snjallsímans. Ný rannsókn hefur leitt í ljós að snjallsímaeigendur nota tækið í auknum mæli til að leysa deilur, skipuleggja fundi, finna veitingastað eða nálgast upplýsingar um neyðarnúmer.

The Pew Internet & American Life Project vann rannsóknina. Fram kemur að 79% allra farsímaeigenda og 86% snjallsímaeigenda hafi notað símann til að leysa eina af sjö svokölluðum lykilaðgerðum. Á meðal þeirra er að leysa óvænt vandamál, fá leiðsögn eða komast að því hver staðan er í íþróttakappleik.

Stofnunin segir að 62% fullorðinna Bandaríkjamanna hafi nýtt símann í þessum tilgangi á undanförnum 30 dögum.

Þá segir að ungir notendur treysti enn frekar á farsímann en þeir sem eldri séu. 88% notenda á milli 18 og 29 ára hafa framkvæmt eina eða fleiri aðgerð á undanförnum 30 dögum miðað við 76% notenda í aldursflokknum 30-49 ára, 57% þeirra sem eru á milli 50-64 ára og 46% þeirra sem eru 65 ára og eldri.

Um þriðjungur karla notar símann til að leita að upplýsingum sem er ætlað að leysa deilur eða rifrildi en 22% kvenna nota símann í þessum sama tilgangi.

65% snjallsímanotenda segjast hafa nýtt tækið til leiðsagnar við akstur og segjast 15% notenda nota tækið reglulega í þeim tilgangi.

Rannsóknin var framkvæmd dagana 15. mars til 3. apríl sl. Alls tóku 2.254 fullorðnir einstaklingar þátt í henni. 88% þeirra áttu farsíma og 46% áttu snjallsíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert