Eitraði Stalín fyrir Lenín?

Jósef Stalín í heimsókn hjá Vladimír Lenín.
Jósef Stalín í heimsókn hjá Vladimír Lenín.

Hugsanlegt er að Jósef Stalín hafi á sínum tíma eitrað fyrir fyrirrennara sínum, Vladímír Lenín, til að losna við hann svo hann gæti setið einn að stjórnartaumum Sovétríkjanna. Svo hljóðar kenning sem sett var fram á bandarískri ráðstefnu í klínískri meinafræði um helgina.

Lenín lést hinn 21. janúar 1924, 53 ára að aldri. Á árlegri meinafræðiráðstefnu í Maryland-háskóla um helgina, þar sem reynt er að varpa ljósi á læknisfræðilegar ráðgátur, var þeirri spurningu velt upp hvers vegna Lenín fékk jafn alvarlegt heilablóðfall og raunin varð svo ungur að aldri, þegar heilsufarssaga hans bendir ekki til flestra hefðbundinna áhættuþátta heilablóðfalls. Frá þessu er sagt í New York Times.

Dularfullt krampakast stuttu fyrir dauðann

M.a. var vitnað í krufningarskýrslu Leníns þar sem fram kemur að slagæðar hans hafi verið „svo kalkaðar að þegar potað var í þær með flísatöng voru þær eins og steinn viðkomu". Hann var hinsvegar ekki með háan blóðþrýsting, reykti ekki, drakk mjög hóflega og hreyfði sig reglulega. Hann var ekki með heilaæxli. Tveir sérfræðingar fjölluðu um málið á ráðstefnunni, dr. Harry Vinters, prófessor í tauga- og taugasjúkdómafræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, og dr. Lev Lurie, rússneskur sagnfræðingur frá Pétursborg. 

Á síðustu æviárum sínum fékk Lenín þrjú lítil heilablóðföll og dró sig í kjölfarið í hlé frá opinberu lífi. Hann hélt þó áfram um stjórnartaumana, en Stalín heimsótti hann reglulega og var tengiliður hans við umheiminn. Þeir rifust reglulega og kom illa saman. Nokkrum dögum áður en hann lést fékk Lenín alvarlegt krampakast. NYT hefur eftir dr. Vinters að slíkur krampi sé „afar óvenjulegur hjá sjúklingi með heilablóðfall". En, bætti hann við, „næstum hvaða eitur sem er gæti valdið slíkum krömpum". 

Lenín var hindrun í veginum

Sagnfræðingurinn dr. Lurie tók undir þetta og sagðist telja að eitrun væri líklegasta skýringin fyrir skyndilegum dauða Leníns. Líklegasti sökudólgurinn væri án nokkurs vafa Stalín, sem leit á Lenín sem helstu hindrunina fyrir valdatöku sinni í Sovétríkjunum. Hann vildi losna við hann. Lurie segir að í Sovétríkjunum á þessum tíma hafi launráð verið brugguð í hverju horni. 

Lenín veiktist fyrst árið 1921 og hrakaði stöðugt til dauðadags 1924. Hann kvaldist af höfuðverkjum og svefnleysi og skrifaði m.a. í bréfi til Maxíms Gorkí að hann væri „svo þreyttur að hann vildi helst ekki gera nokkurn skapaðan hlut". Á sama tíma var hann þó að leggja á ráðin um pólitíska árás á Stalín, sem vissi sjálfur fullvel um fyrirætlanir hans.

„Fullkomlega kaldrifjaður“ Stalín

Árið 1923 sendi Stalín leynilegt bréf til stjórnarráðs kommúnistaflokksins (Pólítbúró) þar sem hann fullyrti að Lenín óskaði sjálfur eftir því að endir yrði bundinn á þjáningar hans. Sjálfur sagðist hann í bréfinu ekki getað hugsað sér að framkvæma þess ósk félaga síns, jafnvel þótt það væri „mannúðlegt og nauðsynlegt".

Dr. Lurie segir hinsvegar ekki ólíklegt að Stalín hafi samt eitrað fyrir Lenín, enda hafi hann verið „fullkomlega kaldrifjaður". Athygli vekur að þótt eitrunarrannsóknir væru oft gerðar við krufningu í Sovétríkjunum var sérstaklega fyrirskipað að það skyldi ekki gert við Lenín. Málið verður því sennilega aldrei upplýst, en dr. Vinters bætti því við að ef þau lyf sem til eru í dag hefðu verið fáanleg í Sovétríkjunum fyrir 100 árum hefði mátt koma í veg fyrir heilablóðföll Leníns.

„Lenín hefði getað lifað í 20-25 ár í viðbót, að því gefnu að hann hefði ekki verið myrtur. Mannkynssagan hefði orðið allt önnur."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka