Elsta vegglist mannkyns er í Frakklandi

Vegglistaverkin í Grotte Chauvet í Frakklandi.
Vegglistaverkin í Grotte Chauvet í Frakklandi. AFP

Elsta leturgröft sem vitað er um er að finna á stórum kalkssteini í Frakklandi. Steinninn fannst árið 2007 en samkvæmt niðurstöðum rannsókna, sem birtar voru í skýrslu í dag, er talið að hann sé 37.000 ára gamall.

Steininn vegur 1,5 tonn og fannst í Abri Castanet í suðvesturhluta Frakklands, þar sem fjölmargar fornar minjar hafa fundist, þar á meðal einhverjir elstu manngerðu listgripir sem fundist hafa, s.s. perlur og gataðar skeljar.

Myndir af hestum og kynfærum kvenna 

Að sögn mannfræðiprófessorsins Randall White við New York háskóla, sem stýrði  rannsókninni, er talið að leturgröfturinn í steininum hafi verið til þess gerður að skreyta helli  veiðimanna. „Þeir skreyttu staðina þar sem þeir dvöldu og þar sem þeir sinntu öllum sínum daglegu störfum," hefur Afp eftir White. Grein um niðurstöður rannsóknarinnar var birt í dag í fagtímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences, 

„Stóra spurningin er hvernig þeir gerðu þetta og hvers vegna, og af hverju við sjáum svo mörg merki þess einmitt á þessum stað og þessum tíma að fólk hafi varið tíma, orku og ímyndunarafli sínu í veggmyndir," segir White. Í kalksteininn eru m.a. grafnar myndir af hestum en einnig grófari myndir sem virðast tákna kynfæri kvenna. Myndirnar eru grafnar í hellisloftið, um 1,5 metra frá jörðu, þangað sem mennirnir gátu auðveldlega teygt sig.

Steinaldarmenn með flókna sjálfsmynd

Myndirnar eru ekki eins þróaðar á hinar frægu veggmyndir af dýrum í Grotte Chauvet í Frakklandi, sem taldar eru vera milli 30.000 og 36.000 ára gamlar. Veggmyndirnar frá Castanet, sem eru a.m.k. 1000 árum eldr, eru grófari og frumstæðari að sögn White.

En þótt handbragðið sé ólíkt telja fornleifafræðingar að listamennirnir hafi komið úr sama steinaldarsamfélaginu, frá upphafi sögu nútímamannsins í Evrópu. Steinaldarmenningin, sem kennd er við Aurignac, í Frakklandi var uppi fyrir um 28.000 - 40.000 árum síðan.

„Aurignac steinaldarmenn voru meira og minna eins og við erum í dag. Þeir höfðu margslungna félagslega sjálfsmynd sem þeir táknuðu meðal annars með persónulegum skrautmunum, og þeir bjuggu til skúlptúra og vegglistaverk," segir White. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert