„Gramsað“ eftir rafrænum bókum

Kindle-lesvélin frá Amazon.
Kindle-lesvélin frá Amazon. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Waterstones-bókabúðirnar á Bretlandseyjum munu brátt hefja sölu á Kindle-lesvélinni frá Amazon og gera bókaormum kleift að „gramsa“ eftir rafrænum bókum í búðum sínum. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Í tilkynningu frá Waterstones kemur fram að aðgerðirnar passi við aðrar framkvæmdir í endurskipulagningu búðanna, sem eru 300 talsins. Sérstök svæði verða helguð rafbókum, ókeypis aðgangur að interneti verður í búðunum og kaffihúsum verður komið á fót.

Í síðasta mánuði gerði bandaríski bóksalinn Barnes & Noble samning við Microsoft um að selja Nook-lesvélina frá fyrirtækinu í búðum sínum.

Í tilkynningu frá Jeff Bezos, upphafsmanni og framkvæmdastjóra Amazon, sagði: „Waterstones er stærsti aðalbóksalinn á hástrætum Bretlands og hefur mikla ástríðu fyrir bókum og lesendum - það er metnaður sem við deilum með okkur.“

Greinendur segja á hinn bóginn að Waterstones hafi ekki átt annarra kosta völ en að ganga til samninga við Amazon.

„Kjósi lesendur í auknum mæli að hlaða bókum niður, er betra fyrir Waterstones að fagna þeirri hegðun í stað þess að reyna að vinna sig framhjá henni,“ sagði Douglas McCabe, greinandi, í samtali við BBC.

„Kindle hefur gríðarlega markaðshlutdeild hvað rafækur varðar á Bretlandseyjum og Waterstones mun njóta góðs af því.“

„Á hinn bóginn, þrátt fyrir alla velgengni Amazon, er fyrirtækið langt frá því að búa yfir sömu sölumöguleikum og útibú Waterstones, þar sem fólk „uppgötvar“ sífellt nýjar bækur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert