Háskerpuútsendingar (HD) standa nú til boða þeim íslensku sjónvarpsáhorfendum sem taka við sjónvarpssendingum í gegnum dreifikerfi Símans og Vodafone. Nú stendur yfir útboð vegna stafræns dreifikerfis Ríkisútvarpsins og með tilkomu þess má reikna með að íslenskir sjónvarpsáhorfendur geti almennt nálgast háskerpuútsendingar.
Háskerpuútsending geymir miklu meiri upplýsingar en hefðbundin sjónvarpsútsending, það er myndin hefur mun meiri upplausn og hljóðið yfirleitt einnig betra. Það þarf því öflugri búnað til þess að horfa á háskerpuútsendingu en hefðbundna sjónvarpsútsendingu.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir að til þess að geta horft á háskerpuútsendingar þurfi allur búnaður sem sjónvarpsmerkið fer um að vera gerður fyrir háskerpuútsendingar. Í fyrsta lagi þurfi sjónvarpsskjárinn að vera gerður til að taka á móti háskerpuútsendingum. Hrannar telur að svo gott sem allir flatskjáir sem seldir hafa verið hér á landi frá því fyrir kreppu séu gerðir fyrir háskerpuútsendingar.
Síðan þarf myndlykil frá Vodafone eða Símanum og hann þarf að vera gerður fyrir háskerpu (HD). Hrannar segir að viðskiptavinir Vodafone geti skipt upp í HD-myndlykil ef núverandi myndlykill þeirra ræður ekki við háskerpuútsendingar. Myndlykilinn þarf að tengja við sjónvarpið með HDMI-snúru í HDMI-tengi.
Vodafone býður einnig upp á svonefnd CAM-kort, sem er önnur gerð myndlykils, til að opna fyrir læstar stöðvar frá 365 og Skjánum. Ekki er þörf fyrir kortið sé útsendingin ólæst, svo framarlega sem stafrænn móttakari er í sjónvarpinu sjálfu.
Sjónvarpsmerkið getur borist með ýmsum hætti. Vodafone dreifir sjónvarpssendingum um örbylgjusenda á höfuðborgarsvæðinu og til að nema þær þarf örbylgjuloftnet. Einnig er sjónvarpi dreift í gegnum netið, bæði í ljósleiðarakerfi Gagnaveitu Reykjavíkur og ADSL-tengingum. Vodafone stefnir að því að dreifa háskerpusendingum til rúmlega 99% landsmanna í gegnum UHF-útsendingar. Þær nást í gegnum venjuleg sjónvarpsloftnet.
Hrannar segir það vera á dagskránni að fjölga háskerpurásum í dreifikerfi Vodafone. Það ráðist þó fyrst og fremst af ákvörðun þeirra sem dreift er fyrir, t.d. Ríkisútvarpsins, 365 miðla eða Skjásins.
Hann segir að um síðustu helgi hafi Evróvisjón-söngvakeppnin verið send út á þremur aðskildum rásum hjá Vodafone. „Það var venjuleg útsending RÚV, háskerpuútsending RÚV og svo vorum við með sérstaka twitter-útsendingu. Þar sáust twitter-tíst eða færslur áhorfenda við hliðina á sjónvarpsmyndinni. Það voru um 1.100 áhorfendur að tísta og tístin voru um 7.500 talsins. Það var mjög skemmtileg umræða,“ sagði Hrannar.
Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að allir myndlyklar sem Síminn dreifir nú séu með háskerpu. Enn eru þó í notkun eldri myndlyklar sem ekki ráða við háskerpu og er þá hægt að uppfæra í nýjan myndlykil.
Hún segir að þeir sem eru með ljósnet og sjónvarp Símans geti verið með allt að fimm myndlykla og horft á háskerpuútsendingar í þeim öllum. Þeir sem horfa á sjónvarp Símans í gegnum ADSL-tengingu geta flestir verið með tvo myndlykla og háskerpu í öðrum þeirra.
Margrét segir líkt og Hrannar að framboð á háskerpuefni í sjónvarpi Símans sé undir sjónvarpsstöðvunum komið. Nú eru ellefu háskerpurásir í sjónvarpi Símans og má gera ráð fyrir að þeim fjölgi í framtíðinni.