Tilfellum lekanda á Englandi fjölgaði um fjórðung á síðasta ári, á sama tíma og sérfræðingar óttast að bakteríusýkingin verði óviðráðanleg og jafnvel ólæknandi. Þegar hafa komið upp tilfelli í Japan og Evrópu sem hafa reynst illviðráðanleg með hefðbundinni meðferð.
Breska lýðheilsustöðin segir að ástandið sé mjög umhugsunarvert. Á síðasta ári hafi tilfellum kynsjúkdóma fjölgað um tvö prósent á heildina litið. Fjölgun tilfella lekanda er gríðarleg í því ljósi.
Lekandi er bakteríusýking sem getur leitt til ófrjósemi. Til að ráða niðurlögum sýkingarinnar taka sjúklingar inn sýklalyf og lætur árangurinn á sér standa á stundum. Gwenda Hughes hjá lýðheilsustöðinni bresku segir í samtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, að um sé að ræða vandamál á heimsvísu. Bakterían komi sér auðveldlega upp mótstöðu við sýklalyfjunum. „Við óttumst að á næstu fimm árum, eða í náinni framtíð, verði þetta virkilega erfið sýking að meðhöndla.“