Hraðvirkasta tölva heims

Sumum nægja einfaldar tölvur sem hægt er að nota til …
Sumum nægja einfaldar tölvur sem hægt er að nota til að vafra um á netinu eða leggja kapal. AFP

IBM-tölvan Sequoia er hraðvirkasta tölva heims. Hún er staðsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum sem hafa nú endurheimt efsta sætið yfir þau lönd sem eiga hraðvirkustu ofurtölvurnar.

Japanska ofurtölvan K, sem kemur úr smiðju Fujitsu, var á toppnum í fyrra en í ár vermir hún annað sæti listans.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að Bandaríkin hafi misst efsta sætið í hendur Kínverja fyrir tveimur árum en nú hafi þeir loks endurheimt toppsætið.

Sequoia verður notuð til að reikna út hvernig lengja megi lífdaga kjarnorkuvopna sem eru farin að eldast. Það er gert til að koma í veg fyrir þörfina á því að gera raunverulegar kjarnorkutilraunir neðanjarðar.

Til að útskýra hversu öflug Sequoia er, þá tekur það tölvuna eina klukkustund að ljúka verkefni sem myndi annars taka 6,7 milljarða manna, sem væru með venjulegar reiknivélar, að reikna út stanslaust á 320 árum.

Bandaríkin eiga nú þrjár tölvur á lista yfir 10 hraðvirkustu tölvur heims. Fyrir hálfu ári áttu Bandaríkin fimm tölvur á þessum sama lista.

Kína og Þýskaland eiga tvær tölvur á listanum og Japan, Frakkland og Ítalía eiga eina hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert