Óráðlegt að vinna mikið heima

Fólk notar oft rangar líkamsstöður þegar það vinnur í snjallsímum …
Fólk notar oft rangar líkamsstöður þegar það vinnur í snjallsímum sínum og spjaldtölvum. Það getur valdið meiðslum í baki og hálsi. Reuters

Fjöldi fólks stefnir heilsu sinni í hættu með því að vinna í snjallsímum sínum, spjaldtölvum eða fartölvum eftir að haldið er heim af skrifstofunni. Þetta segja samtök sjúkraþjálfara í Bretlandi.

Þau segja að fólk hafi breyst í „þræla skjáanna“ og vinni það gjarnan á leið heim úr vinnu eða eftir að heim er komið. Utan vinnustaða notar fólk gjarnan rangar líkamsstöður þar sem vinnuhæðin og vinnurýmið er ekki eins og best verður á kosið og getur það valdið meiðslum í baki og hálsi. Fólk verði að læra að slökkva á tölvunum eftir vinnu.

Í könnun sem samtökin gerðu í gegnum netið meðal rúmlega tvö þúsund manns kom í ljós að meirihluti aðspurðra hélt áfram að vinna eftir að hefðbundnum vinnudegi var lokið. Að meðaltali vann fólk í tölvunni í u.þ.b. tvo tíma eftir vinnu.

Formaður samtakanna, Helena Johnson, segir ekki ráðlegt að taka á sig of mikla vinnu og draga úr vinnuálaginu á daginn með því að vinna á kvöldin. „Þótt það virðist góð skammtímalausn að vinna aðeins heima, þá getur það valdið verkjum í baki og hálsi, auk álagstengdra sjúkdóma, verði það að vana. Þetta á sérstaklega við um tæki sem halda þarf á en þá leiðir fólk ekki hugann að líkamsstöðunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert