Rómverskar minjar finnast í Japan

Rómverska heimsveldið teygði anga sína langt.
Rómverska heimsveldið teygði anga sína langt. mbl.is

Fyrir viku síðan fundust fornir skartgripir í grafhýsi í Japan, en skartgripirnir eru taldir hafa verið búnir til af rómverskum handiðnaðarmönnum. Þessi uppgötvun gefur til kynna að rómverska veldið hafi náð alla leið til Japan.

Rannsóknir á skartgripunum sýna að gripirnir voru líklegast smíðaðir á 1.-4. öld. Skartgripirnir (glerperlur) voru m.a. búnir til úr matarsóda, en matarsódi var notaður af handiðnaðarmönnum í Róm til að bræða gler og var sá háttur á málum í rómverska heimsveldinu þar til Konstantínópel féll árið 1453. 

Perlurnar eru elstu glerskartgripir sem fundist hafa í Japan, en slíkir skartgripir voru mjög sjaldgæfir. „Við teljum að perlurnar hafi verið búnar til í rómverska heimsveldinu og svo sendar til Japan,“ segir Tomomi Tamura, en hún er ein af þeim sem rannsaka nú grafhýsið.

Rómverska heimsveldið var sterkast í kringum Miðjarðarhafið og teygði anga sína alla leið til Bretlands. Uppgötvunin í Japan getur nú varpað betur ljósi á það hversu langt rómverska heimsveldið náði austur, en Japan er um 10 þúsund kílómetra frá Ítalíu. 

„Þetta varpar einnig ljósi á það hvernig í ósköpunum þeir gátu náð alla leið til Japan,“ bætir Tamura við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert