Svissnesk-bandarísk rannsókn hefur sýnt fram á það að mismunandi en þó tengd svæði heilans virkjast þegar manneskja upplifir losta annars vegar og ást hins vegar. Þetta kemur fram í frétt thelocal.ch um málið.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að kynferðisleg löngun virkjaði sömu stöðvar í heilanum ogt virkjast þegar hugsað er um hluti sem fela í sér ánægju, s.s. mat eða kynlíf, en ástin virkjaði stöðvar sem eru taldar tengjast verðmætamati og mati á ánægju.
„Ástin er í raun vani sem myndast þegar kynferðisleg löngun er verðlaunuð,“ sagði Jim Pfaus, einn af aðstandendum rannsóknarinnar. „Hún virkar á sama hátt á heilann og þegar fólk ánetjast fíkniefnum.“
Í rannsókninni voru bornar saman niðurstöður úr 20 mismunandi rannsóknum þar sem fólk átti að horfa á ljósmyndir af mökum sínum til skiptis við kynörvandi ljósmyndir. Þetta er í fyrsta sinn þar sem heilastarfsemin í þessum ólíku en skyldu tilfinningum er borin saman.
„Við vissum ekkert á hverju við máttum eiga von, það hefðu getað reynst vera engin tengsl. Hins vegar kom í ljós að þessar tilfinningar virkja tvö mismunandi, en þó tengd svæði heilans,“ sagði Pfaus.