Hreyfingarleysi veldur álíka mörgum dauðsföllum í heiminum og reykingar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt er í læknatímaritinu Lancet.
Fram kemur að þriðjungur fullorðinna hreyfi sig ekki nóg og er talið að rekja megi um 5,3 milljónir dauðsfalla árlega til kyrrsetu eða hreyfingarleysis. Fjallað er um þetta á vef BBC.
Það jafngildir um 10% dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma, sykursýki, brjósta- og ristilkrabbameins.
Vísindamenn segja þetta mjög alvarlegt vandamál sem líta eigi á sem faraldur.
Til að taka á vandanum verði menn að hugsa út fyrir kassann. Bent er á að nauðsynlegt sé að upplýsa almenning um hætturnar sem fylgi hreyfingarleysi í stað þess að minna aðeins á kostina.