Hvítabirnir eldri en áður var talið

Hvítabirna ásamt húnum.
Hvítabirna ásamt húnum. AFP

Hvítabirnir eru mun eldri tegund en áður var talið, en þeir þróuðust frá brúnbjörnum fyrir 4-5 milljónum ára. Erfðablöndun milli tegundanna hefur þó alltaf átt sér stað og auk stórfelldra loftslagsbreytinga haft mikil áhrif á þróun tegundarinnar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem m.a. Háskóli Íslands kom að.

Umfangsmesta rannsóknin um erfðaefni hvítabjarna

Ólafur Ingólfsson, prófessor í jarðfræði við HÍ, tók þátt í rannsókninni sem er að sögn Jarðvísindastofnunar HÍ sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á erfðaefni hvítabjarna hingað til. 13 rannsóknarstofnanir og háskólar í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu tóku þátt og eru niðurstöðurnar birtar í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. Greinin er aðgengileg öllum hér.

Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að stórfelldar loftslagsbreytingar og blöndun erfðaefnis frá brúnbjörnum yfir milljónir ára hafa mótað þróun hvítabjarnartegundarinnar. Stofnstærð hvítabjarna hefur t.d. breyst í takt við þróun jöklunar og loftslags, þannig að stofninn hefur vaxið á jökultímum en dregist saman á hlýskeiðum. Þannig hafa hvítabirnir sem urðu strandsettir þegar hafísþekja minnkaði í Norðuríshafi á hlýskeiðum ítrekað blandast brúnbjörnum, sem fluttu búsvæði sín til norðurs þegar hlýnaði. 

Erfðagreindu 130.000 ára gamalt kjálkabein sem Ólafur fann

Vísindamennirnir raðgreindu heildarerfðamengi alls 28 hvítabjarna, þriggja brúnbjarna og eins svartbjörns. Auk þess var gerð samanburðar raðgreining á 23 hvítabjörnum til viðbótar, þar á meðal á erfðaefni úr 130.000 ára gömlum steingerðum hvítabjarnarkjálka sem Ólafur Ingólfsson fann á Svalbarða. 

Niðurstöðurnar benda til þess að steingerði kjálkinn frá Svalbarða sé af dýri sem tilheyrði stofni nú útdauðra hvítabjarna, sem voru náskyldir núlifandi hvítabjörnum. Þetta gæti bent til þess að Svalbarði hafi á undangengnum hlýskeiðum verið eitt lykilsvæða þar sem hvítabirnir lifðu af tímabil með litlum árstíðabundnum hafís á Norðurskautssvæðunum, án þess að blandast brúnbjörnum. Þegar aftur kólnaði og hafísþekjan breiddist út hafi hvítabirnirnir aftur dreifst um norðurheimskautssvæðin. 

Stendur ógn af minnkun búsvæða

Þá sýnir rannsóknin að stofnstærð hvítabjarna í dag er mun minni en hún var þegar kaldara var á ísöld og erfðafræðilegur fjölbreytileiki þeirra er miklum mun minni en hjá brúnbjörnum. Þetta gæti bent til þess að hvítabirnir hafi farið í gegnum þróunarlega flöskuhálsa þegar þrengdi að þeim á hlýskeiðum ísaldar og stofninn einangraðist á eyjaklösum eins og Svalbarða. Samfara varð blöndun við brúnbirni á heimskautssvæðum meginlandanna.

Hvítabjörnum nútímans stendur því veruleg ógn af minnkun búsvæða tengdri hnattrænni hlýnun og aukinni blöndun við brúnbirni í framtíðinni. 

Erfðaefni úr 130.000 ára gömlum steingerðum hvítabjarnarkjálka sem Ólafur Ingólfsson …
Erfðaefni úr 130.000 ára gömlum steingerðum hvítabjarnarkjálka sem Ólafur Ingólfsson fann á Svalbarða var greint. Ljósmynd/Ólafur Ingólfsson
Brúnbirna ásamt tveimur húnum. Hvítabirnir þróuðust frá brúnbjörnum en blöndun …
Brúnbirna ásamt tveimur húnum. Hvítabirnir þróuðust frá brúnbjörnum en blöndun milli tegundanna hefur átt sér stað allar götur síða. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka