Ef skoðuð er farsímanotkun í Vestmannaeyjum sést greinilega hversu mjög hún eykst meðan á þjóðhátíð stendur. Jafnframt sést greinilega að þjóðhátíðargestir höfðu mest að segja um miðnætti, en símnotkun náði hámarki um það leyti alla þjóðhátíðardagana. Þó var sunnudagurinn örlítil undantekning, því þá var mesta notkunin um klukkan eitt um nóttina. Á fimmtudagskvöldinu var toppurinn hins vegar um kl. 22. Notkunin minnkar svo hratt á mánudeginum þegar dagskránni lýkur og þjóðhátíðargestir halda heim á leið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.
Að jafnaði er símnotkun umtalsvert meiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þessi hefðbundna skipting var óbreytt skv. símkerfi Vodafone á miðvikudegi og fimmtudegi í síðustu viku. Um miðjan föstudag urðu hins vegar alger umskipti þegar símnotkun á landsbyggðinni fór langt fram úr notkun á höfuðborgarsvæðinu.
Forskot landsbyggðarinnar hélst fram á seinni hluta mánudags, þegar umskipti urðu á nýjan leik og notkun innan höfuðborgarsvæðisins varð aftur meiri en utan þess. Þegar rýnt er í meðfylgjandi línurit sést líka greinilega að nokkur fjöldi fólks virðist ekki hafa lagt af stað úr bænum fyrr en á laugardeginum, því þá jókst bilið enn meira milli landshlutanna.
Eins minnkaði munurinn strax á seinni hluta sunnudags, sem er vísbending um að einhverjir hafi haldið heim á leið strax á sunnudagseftirmiðdag, jafnvel þótt sjálfur frídagur verslunarmanna væri ekki runninn upp. Mest varð þó breytingin á mánudeginum þegar fólk streymdi aftur til höfuðborgarsvæðisins eftir helgarflakkið, segir í tilkynningu Vodafone.