Genastökkbreytingar hafa fundist í þremur kynslóðum fiðrilda skammt frá Fukushima í Japan en þar varð mikið kjarnorkuslys í mars í fyrra í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju. Vísindamenn óttast að geislunin geti haft áhrif á fleiri dýrategundir.
Um 12% fiðrilda af tiltekinni tegund, sem á lirfustigi komust í snertingu við geislavirkt ofanfall, reyndust frábrugðin öðrum að því leyti að vængirnir voru minni auk þess sem augu þeirra störfuðu ekki.
Fiðrildin voru látin fjölga sér á tilraunastofu sem staðsett var utan skilgreinds hættusvæðis. 18% afkvæmanna sýndu svipuð einkenni geislunar en þegar kom að þriðju kynslóðinni reyndist hlutfallið 34%, jafnvel þótt að þess væri gætt að í hverri pörun væri annað foreldrið heilbrigt.
Þá fönguðu vísindamenn 240 fiðrildi í Fukushima í september í fyrra, hálfu ári eftir náttúruhamfarirnar, og kom í ljós að í 52% þeirra var að finna galla á borð við þá sem nefndir eru ofar. Joji Otaki, sem starfar við Ryukyu háskólann í Okinawa, gerði samanburðarrannsókn þar sem heilbrigð fiðrildi í Okinawa voru látin komast í snertingu við lítið magn geislavirkra efna og í ljós koma að sambærilegt hlutfall fiðrilda sýndi merki um áhrif geislunar.
„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að geislun úr Fukushima kjarnorkuverinu skemmdi gen fiðrildanna,“ segir Otaki. Óttast nú margir hvaða áhrif geislunin kann að hafa haft á fólk sem var í Fukushima og nágrenni fyrstu dagana og vikurnar eftir að kælikerfi kjarnaofnanna hætti að virka þannig að þeir bráðnuðu og geislavirk efni sluppu út. Otaki varar þó við að draga ályktanir af tilrauninni of fljótt, ekki sé hægt að yfirfæra niðurstöðurnar beint á mannfólk og önnur dýr. Til þess sé frekari rannsókna þörf.
Tugir þúsunda flúðu heimili sín í Fukushima eftir kjarnorkuslysið og hafa vísindamenn varað við því að fólki sé eflaust ekki hætt að snúa aftur heim fyrr en eftir nokkra áratugi.