Netflix þjónustan sem notið hefur gríðarlegra vinsælda ætlar nú að hefja innreið sína á Norðurlöndunum. Ísland virðist ekki fá að vera með í þessari umferð og syrgja það eflaust margir.
Netflix býður s.k. VOD þjónustu (video on demand) sem þýðir að gegn vægu áskriftarverði er hægt að sækja streymi kvikmynda og sjónvarpsþátta í gegnum netið. Almenn áskrift er 7,99 bandaríkjadalir á mánuði, eða tæpar 1.000 krónur.
Skandinavía verður fjórði erlendi markaðurinn sem Netflix reynir við, en fyrsta skrefið út fyrir Bandaríkin var tekin 2010 þegar Netflix opnaði í Kanada. 2011 varð Netflix svo aðgengilegt í Suður-Ameríku og í Bretlandi í janúar 2012. Fyrir árslok munu svo íbúar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands geta nýtt sér þjónustu Netflix.
Ólöglegt á Íslandi
Vegna höfundarréttarákvæða verður Netflix ekki lögleg þjónusta á Íslandi fyrr en fyrirtækið kaupir réttinn til að dreifa og sýna efni hér á landi. Engu að síður hefur talsvert verið um það að Íslendingar noti sér þjónustu Netflix eftir krókaleiðum og gagnrýndi Smáís það nýlega í umdeildri auglýsingu. Þar sagði að þúsundir Íslendinga neyti í hverjum mánuði efnis með þessum hætti og það kosti íslenskt þjóðfélag háar upphæðir.
Alls eru 27 milljón áskrifendur að Netflix, en þar af eru aðeins 3,6 milljónir utan Bandaríkjanna. Fram kemur á vefnum Mashable að útrás Netflix hafi gengið misvel eftir heimshlutum, einkar vel í Kanada en verr í Suður-Ameríku. Ef vel gengur í Skandinavíu má vel hugsa sér að þjónustan verði kannski einhvern daginn opnuð fyrir Íslendingum.