Ljónabein eru að verða vinsælt hráefni í óhefðbundinni lyfjagerð í Asíu. Þessi aukna eftirspurn freistar veiðiþjófa í Suður-Afríku og ógnar ljónastofninum þar í landi.
Dýraverndunarsinna eru þegar ósáttir við að enn séu leyfðar skemmtiveiðar á ljónum í landinu. Beinagrindur ljóna eru nú fluttar út til Víetnam og Laos og telja dýraverndunarsinnar aukna eftirspurn koma til að með að ógna ljónastofninum í landinu. Bein ljóna þykja hafa lækningamátt, líkt og horn nashyrninga í óhefðbundnum lækningum í Asíu.
„Allt í einu núna er stór hópur fólks frá Laos sem hefur áhuga á skemmtiveiðum. Og það hefur aldrei áður gerst í sögu Laos,“ segir Pieter Kat frá dýraverndunarsamtökunum LionAid.
Veiðar eru leyfðar á um 500 ljónum í Suður-Afríku á ári hverju. Í flestum tilvikum eru dýrin veidd á ljónabúgörðum sem eru þeir sömu og sjá dýragörðum heimsins fyrir þessum tignarlegu dýrum merkurinnar. Veiðimennirnir taka hausa ljónanna með sér heim sem minjagripi um afrek sín en hræinu er að öðru leyti hent. En nú er að verða breyting þar á.
Ljónabein eru vinsæl núna líkt og tígrisdýrabein voru áður en útflutningur á þeim er algjörlega bannaður. Nú eru stjórnvöld í Suður-Afríku hvött til að banna útflutning á ljónabeinum. Þeir sem reka veiðibúgarðana segja fráleitt að banna útflutning beinanna, fyrst leyfilegt sé að skjóta dýrin.
Stjórnvöld hafa ekki tjáð sig í málinu.