Bandarískir fræðimenn við Stony Brook University hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú viðtekna skoðun að mánudagar séu almennt sérstaklega illa séðir hjá fólki sé goðsögn. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar þeirra eru þriðjudagar, miðvikudagar og fimmtudagar alveg eins óvinsælir og mánudagar.
Fræðimennirnir byggja rannsókn sína á könnun á meðal 340 þúsund manns en samkvæmt henni er skap fólks allajafna ekkert verra á mánudögum en aðra virka daga að undanskildum föstudögum. Eftir sem áður varð fólk ánægðara eftir því sem nær dró næstu helgi.
Í kjölfarið hafa fræðimennirnir lagt til að goðsögnin um mánudaga til mæðu verði aflögð samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.