Kannabis hættulegt fyrir ungt fólk

Kannabis
Kannabis Reuters

Ný rannsókn bendir til að kannabisreykingar séu hættulegri fyrir fólk undir 18 ára aldri en fólk sem er komið yfir þann aldur. Þetta er fyrsta rannsóknin sem bendir til að neysla kannabis sé hættulegri fyrir ungt fólk en þá sem eldri eru.

Rannsóknin bendir til að kannabisreykingar hafi neikvæðari áhrif á greind, athygli og minni ef reykingamaðurinn er yngri en 18 ára en á þá sem eru eldri. Rannsóknin byggist á könnun sem nær til fjögurra áratuga, að því er segir í frétt í breska blaðinu Guardian.

Fylgst var með þúsund manna hópi frá fæðingu til 38 ára aldurs. Um 5% hópsins notuðu kannabis a.m.k. einu sinni í viku frá unglingsárum. Á aldrinum 13-38 ára fór hópurinn í læknisskoðun þar sem þátttakendur fóru m.a. í greindarpróf. Greindarvísitala þeirra sem höfðu neytt kannabiss frá unglingsárum hafði lækkað um átta stig að meðaltali.

Greindarvísitala þeirra sem hættu kannabisreykingum breyttist ekki eftir að þeir hættu neyslunni, sem bendir til þess að skaðinn sé varanlegur. Rannsóknin benti hins vegar til að aldurinn skipti verulegu máli. Greindarvísitala þeirra sem hófu kannabisreykingar eftir 18 ára lækkaði ekki með sama hætti og þeirra sem byrjuðu á unglingsárum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert