Tölvufyrirtækið Google hefur bætt íslensku í raddleit Google Search sem meðal annars er að finna í Android-stýrikerfinu. Auk íslenskunnar var tólf öðrum tungumálum bætt í leitina.
Raddleitin byggist á grunntækni sem kallast talgreining og breytir talmáli í texta. Til að þjálfa talgreini fyrir nýtt tungumál er stuðst við upplesnar setningar (hljóðskrár) og texta þeirra, segir í tilkynningu.
Háskólinn í Reykjavík og Máltæknisetur, í samstarfi við Google, hafa undanfarið staðið fyrir verkefninu Almannarómur þar sem rúmlega 123.000 íslenskum raddsýnum var safnað frá 563 einstaklingum. Raddsýnin mynda gagnasafn sem hefur að geyma hljóðskrár og textaskrár og gerir tölvu kleift að skilja íslenskt talmál, segir í tilkynningu.