Skjóta máva sem éta hvali

Mávur gæðir sér á hvalspiki.
Mávur gæðir sér á hvalspiki. Daniel Feldman/AP

Argentínumenn hafa hrundið af stað 100 daga herferð sem m.a. miðar að því að skjóta máva sem herja á hvali. Umhverfissinnar eru ekki sérlega hrifnir af herferðinni, en þeir segja að hið raunverulega vandamál sé að mávum hafi fjölgað vegna mikils úrgangs sem mannfólkið sendi frá sér.

Argentínumenn eru miklir stuðningsmenn friðunar hvala. Fyrir nokkrum áratugum urðu menn varir við að mávar voru farnir að setjast á hvali sem syntu í sjónum, í þeim tilgangi að éta úr sárum sem myndast á skinni hvalanna. Nú er þetta orðin mjög algeng hegðun hjá mávum. Þetta veldur því að sárin, sem kannski voru mjög lítil, stækka. Greinilegt er að þetta veldur hvölunum óþægindum og segja vísindamenn að til merkis um það slái hvalirnir sporðinum til og frá og þeir hafi lært að stinga bara höfðinu upp til að anda í stað þess að allur bakhlutinn sjáist.

Nú vilja Argentínumenn taka á þessu vandamáli með því að hefja umfangsmikla fækkun á mávum. Umhverfissinnar styðja ekki þessa aðgerðir. Þeir segja að nær væri að taka á orsök vandans, sem sé slæm umgengi manna í náttúrunni. Ef maðurinn myndi ekki losa sig við svona mikið af úrgangi út í náttúruna myndi mávum sjálfkrafa fækka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert